Meðferð elds á grónu svæði
Þegar gróður er þurr þarf aðeins lítinn neista til að kveikja eld. Í langvarandi þurrkum og hvassviðri skal sýna sérstaka aðgát og fara varlega með vélar og eld úti við. Dæmi eru um gróðurbruna hér á landi út frá sígarettum, flugeldum, bílvélum og einnota útigrillum svo fátt eitt sé nefnt. Best er að kveikja eld á þar til gerðum svæðum. Ef kveiktur er eldur utandyra skal einungis gera það á opnu svæði og gæta þess að ekki séu eldfim efni nærri, þurr lauf, gróður eða viður. Neistar geta fokið frá eldstæði og kveikt í gróðri, jafnvel langt í burtu. Hafðu alltaf tiltæka skóflu og vatnsfötu. Best er að ákveðinn einstaklingur taki ábyrgð og yfirgefi eldinn ekki fyrr en tryggt er að hann sé kulnaður og slokknað í glóð. Helltu vatni yfir eldinn til að kæfa hann. Veltu öllum kolum við og bleyttu vel, gættu að því að ekki finnist hiti með því að leggja höndina yfir. Að því loknu skaltu moka mold eða sandi yfir og hræra saman við kolin. Haltu eldinum eins litlum og mögulegt er og taktu tillit til aðstæðna. Að öðrum kosti skal sækja um leyfi slökkviliðsins á staðnum. Ekki leggja einnota grill beint á gras, gróður eða önnur brennanleg efni. Undirlagið skal vera möl eða steinar. Fylgstu með grillinu meðan eldur er í því og helltu vatni yfir kolin að notkun lokinni. Nauðsynlegt er að yfirfara öll grill reglulega. Gasgrill sem staðið hafa ónotuð þarf að yfirfara og skipta t.d. um slöngu.